139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:49]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau orð sem einstaka hv. þingmenn hafa beint til hv. þm. Róberts Marshalls, að koma í umræðuna eftir ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar, sem var afskaplega yfirgripsmikil og góð, og svara henni á málefnalegan hátt. Hv. þingmaður sagði áðan að hann væri ekki sammála öllu sem þar hefði komið fram og það væri mjög áhugavert að heyra sjónarmið hans og þær athugasemdir sem hann gerir við ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar sem ég hlustaði á með mikilli athygli.

Eins vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. forseta í mikilli vinsemd: Hvenær hyggst hæstv. forseti slíta þingfundi? Það væri mjög gott ef hægt væri að fá þær upplýsingar. Ég hef reyndar ekki skilið af hverju ekki er hægt að koma þeim upplýsingum á framfæri án þess að þurfa að kalla eftir því mjög oft hvenær hæstv. forseti hyggist slíta fundi. Ég hef verið hér síðan fyrir kl. 7 í morgun, ég þurfti að undirbúa mig fyrir nefndarfund sem var í morgun, og það væri því afskaplega gott að vita hvenær þingfundi muni ljúka, virðulegi forseti.