139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[02:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að einstakt er að fara í þá vegferð sem hér er verið að fara. Þá hlýtur maður að spyrja sig hver markmiðin séu með því að gera hlutina svona. Hér er talað um sveigjanleika og það kom fram í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar að það sem síst þyrfti akkúrat núna væri meiri sveigjanleiki heldur þyrftum við formfestu og yfirvegun og einhverja skynsemi í stjórnmálin. Ég vona svo sannarlega að hv. þingmenn og aðrir sem mögulega eru enn á fótum og heyra þetta taki sig til og hlusti á ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar því að hún var allt í senn fræðileg yfirferð og söguleg.

Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson nefndi það í ræðu sinni að hann hefði áhyggjur af málefnunum (Forseti hringir.) og slíku. Mig langar að biðja hv. þingmann um að draga upp þá mynd sem gæti orðið ef forsætisráðherra fengi heimild til að draga málefnin frá einhverju ráðuneyti bara sisvona.