139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[02:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef skilið þetta ákvæði gengur það út á að gefa út samtöl sem eiga sér stað á ríkisstjórnarfundum á eins konar hljóðbók, sem verður kannski varðveitt í segulbandasafni Ríkisútvarpsins, og við fáum að hlusta á eftir 30 ár.

Nú verð ég að játa það að miðað við þær skrautlegu æfingar sem eru milli ráðherra og innan stjórnarliðsins utan ríkisstjórnarherbergisins er ég fullur tilhlökkunar satt að segja að fá að hlusta á samtölin á ríkisstjórnarfundunum. Ég er að vísu kominn vel yfir fimmtugt þannig að ég verð á níræðisaldri þegar upptökurnar verða gefnar út, (Gripið fram í.) ef guð lofar, þannig að ég er auðvitað ekki viss að eiga þess kost að hlusta á þær en það er augljóst mál að þessi aðferð mun hafa þau áhrif að ýmis samtöl sem nú eiga sér stað á ríkisstjórnarfundum munu fara fram utan ríkisstjórnarherbergisins.