139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[02:32]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á hv. þingmaður í raun og veru við það, sem hefur kannski legið svolítið undir í umræðunni í dag, að hugsanlega færu ríkisstjórnarfundir fram fyrir ríkisstjórnarfundina og ríkisstjórnarfundirnir yrðu þá eins konar blaðamannafundir sem þó yrðu ekki gerðir opinberir fyrri en 30 árum síðar?

Nú bý ég ekki yfir sömu reynslu og hv. þingmaður, að hafa starfað í ríkisstjórn, (Gripið fram í: Ekki enn þá.) ekki enn þá. Mun það ekki gera starf ríkisstjórnarinnar töluvert erfiðara að ríkisstjórnin geti ekki sest niður og rætt opinskátt um málin því að sumt á kannski ekki erindi í hljóðupptökur? Er ekki hætta á því að menn fari hugsanlega að halda ríkisstjórnarfundi fyrir ríkisstjórnarfundina og hver er þá tilgangurinn með þessari tillögu? (Gripið fram í.)