139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[02:53]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta voru greinargóð svör hjá hæstv. forseta, það eru 11 á mælendaskrá. Ég spurði áðan hvort til stæði að þingfundur stæði til klukkan þrjú, fjögur, fimm, sex eða jafnvel til klukkan sjö.

Það er ekkert að því að ræða þetta mál hér áfram og ekkert að því að ræða önnur mál líka ef því er að skipta. En það er alveg með ólíkindum að við getum ekki með nokkru móti fengið fram neinar tímasetningar hjá hæstv. forseta og það er enn ótrúlegra að þingflokksformenn hafi ekki fundað síðan á mánudag. Þetta er algjört hneyksli.

Ég trúi því ekki að jafngóðir menn og Siglfirðingar láti þessa óreiðu viðgangast. Siglfirðingar eru almennt mjög nákvæmir, hefur mér skilist, og stundvísir og ég trúi því ekki að þeir (Forseti hringir.) Siglfirðingar sem hér eru geti ekki tekið höndum saman og komist að niðurstöðu um það hvenær ætlunin er að slíta þingfundi.

(Forseti (KLM): Eins og forseti sagði áðan hyggst hann gefa fleirum orðið og eftir því sem styttri tími fer í þennan lið, fundarstjórn forseta, þeim mun fyrr lýkur fundi.)