139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[03:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom inn á mörg þau atriði sem ég gat um í fyrri ræðu minni í gærkvöldi og er ekki enn búið að svara. Stefna hv. þm. Róberts Marshalls, sem er framsögumaður meirihlutaálits, er lítilsvirðing við Alþingi. Hann ætlar að svara öllum þessum spurningum og öllum þessum sjónarmiðum í atkvæðaskýringu. Það er algjör lítilsvirðing. Og það að hæstv. forsætisráðherra, sem flytur málið, skuli ekki láta svo lítið að koma hingað og svara þeim sjónarmiðum sem hafa komið fram. Mér finnst þetta vera lítilsvirðing.

Ég spyr hv. þingmann sem kom nefnilega inn á mjög mikilvægt atriði: Hvernig verður þessum lögum beitt þegar búið er að samþykkja þau? Hvað gerist þá? Það hefur ekkert verið rætt. Ekki hefur hv. framsögumaður sagt mér hvað gerist þegar búið er að samþykkja þetta sem lög. Það hefur enginn sagt mér það. Ekki hefur hæstv. forsætisráðherra komið hingað eða hæstv. innanríkisráðherra sem er á móti málinu og ekki heldur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hann hefur ekki sagt mér hvað gerist þegar búið er að samþykkja frumvarpið og hvernig lögunum verði beitt.

Það er verið að fara á bak við Alþingi. Ég vil fá að vita hvað gerist með þetta frumvarp þegar búið er að samþykkja það. Ég skora á hv. þm. Birgi Ármannsson að krefjast þess með mér að framsögumaður meiri hlutans svari þessum spurningum og að hæstv. forsætisráðherra, innanríkisráðherra og landbúnaðarráðherra segi okkur hvað verður gert. Heimildirnar eru botnlausar og það stendur til að gera eitthvað, annars gæti málið beðið fram í október.