139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[03:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir að ætla að berjast með mér í því að reyna að fá þessar upplýsingar fram, kreista út úr hæstv. forsætisráðherra hvað hún hyggst fyrir þegar búið verður að samþykkja frumvarpið. Stjórnarmeirihlutinn þarf líka að vita það því að ég efast um að hann hafi spáð í hvað kemur út úr þessu. Ég hef ekki heyrt nokkurn einasta stjórnarþingmann svara því hvað gerist þegar forsætisráðherra fær slíkt alræðisvald, núverandi forsætisráðherra og ráðherrar framtíðarinnar sem geta verið allt annarrar gerðar.

Það er verið að gefa þarna gífurlegt vald. Það getur til dæmis bara verið eitt ráðuneyti, það er ekkert sem útilokar það, eða tvö, annað fyrir hæstv. fjármálaráðherra og hitt fyrir hæstv. forsætisráðherra. Þannig gæti ríkisstjórnin litið út í framtíðinni. Ég veit ekki hvort menn hafa áttað sig á því og hvernig flokksræðið og foringjaræðið verður algert.