139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[03:22]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að hnykkja aðeins á því að einhver áætlun hljóti að vera fyrir hendi þá er auðvitað svo. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu eru engar dagsetningar innbyggðar í frumvarpið sem gera kröfu til þess að það sé afgreitt í september frekar en í október eða nóvember, svo að dæmi sé tekið. Það eru engar dagsetningar í þessu frumvarpi. Mér er ekki kunnugt um að það séu neinar ytri aðstæður, aðstæður í þjóðfélaginu eða neitt slíkt, sem gera kröfu til þess að þetta sé afgreitt á morgun eða hinn frekar en um miðjan október eða í byrjun nóvember, ekki neitt, ekki nokkur skapaður hlutur.

Ástæðuna fyrir þeim asa sem er á afgreiðslu málsins á þessum lokaspretti haustþings hlýtur að mega rekja til þess að einhver áætlun sé fyrir hendi, einhver áform um breytingar á Stjórnarráðinu, breytingar á ráðuneytum, tilflutning verkefna eða eitthvað slíkt. Það er eitthvað svoleiðis held ég hljóti að vera. (Forseti hringir.) Og það væri, eins og hv. þingmaður segir, ekki heiðarlegt ef þingið yrði leynt því hver þau áform eru.