139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[03:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar til að bera upp spurningu til hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, vegna þessarar mjög óvæntu stuttu ræðu hans, hvernig hann sjái fyrir sér afgreiðslu á tillögum þingmanna Framsóknarflokksins, sem eru lausnamiðaðar eins og þeir hafa orðað það og lagðar hafa verið fram til að reyna að ná lendingu í málinu og leysa það. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að restin af þingflokki Framsóknarflokksins muni … (Gripið fram í.) Hv. þm. Pétur Blöndal vill kannski orða spurningarnar fyrir mig og fær tækifæri til þess í andsvari hér á eftir. Hvernig sér hann fyrir sér að þingflokkurinn muni afgreiða það mál, hver verður afstaða þingmannanna til þessara tillagna?

Því verður ekki haldið fram að mikið foringjaræði sé í þingflokki Framsóknarflokksins, mér finnst reyndar ekki vera nokkurt foringjaræði þar, ef marka má tíðindin af vettvangi dagsins í þinginu. Þess vegna leikur mér hugur á að fá að vita hvernig þingflokkurinn muni afgreiða þetta mál og hvort hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sjái fyrir sér frekari tíðindi af vettvangi Framsóknarflokksins, fleiri þingmenn muni yfirgefa flokkinn í kjölfar afgreiðslu flokksins á tillögunum.