139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

endurreisn efnahagslífsins.

[10:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hér var erlendur spekingur í heimsókn í gær eða fyrradag sem hafði með greiningu utan frá spáð ótrúlega glögglega fyrir um hrun íslenska hagkerfisins. Hvað sagði hann núna um ástandið á Íslandi? Hann bar saman nokkur lönd sem lent höfðu í sambærilegri bólu, Ísland, Bretland, Írland, Spán, Portúgal, Grikkland og Bandaríkin, og sagði: Ísland kemur best út, Ísland er að rísa fljótast á fæturna af þessum hagkerfum. Þær hagvaxtartölur sem ég nefndi eru einhverjar þær hæstu sem nú eru í gangi og spáð er innan OECD á þessu árabili. Það er rétt að það er heilmikið sem við ætlum okkur að vinna til baka. En það verður ekki gert með einni fjárfestingu. Það er svo ótrúlegur málflutningur að halda að þetta standi allt og falli með að það sé virkjað eitthvað á einu tilteknu svæði í landinu. (Gripið fram í.) Þetta snýst um að hagkerfið í heild sinni komist á betra skrið. Það eru góðar horfur á að það geri það með kraftmikilli útflutningsstarfsemi. Þegar endurskipulagningu skulda í atvinnulífinu lýkur (Forseti hringir.) verður atvinnulífið í allt öðrum færum til að taka við sér og það er almennur bati í öllu hagkerfinu sem við þurfum að fá. Hann næst ekki fram með tilgangslausu rifrildi um það hvort eigi að virkja nákvæmlega þessa virkjun á þessum stað. (Gripið fram í: Engin … Þjórsá?) (Gripið fram í: Lestu skýrslu …)