139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

afstaða ráðherra til frumvarps um Stjórnarráðsins.

[10:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Í gær voru fluttar margar ágætar ræður og málefni Stjórnarráðsins rædd töluvert mikið og töluvert fram eftir kvöldi. Ein ræða var sýnu athyglisverðust fyrir tengsl þess ræðumanns, hv. þm. Atla Gíslasonar, við fjármálaráðherra. Mig langar því að ræða við hæstv. fjármálaráðherra um ákveðna hluti í þeirri ræðu.

Hverju svarar fjármálaráðherra gagnrýni hv. þm. Atla Gíslasonar, flokksfélaga fjármálaráðherra, sem þingheimur, fjármálaráðherra o.fl., treysti til að fara með formennsku í svokallaðri þingmannanefnd sem skilaði svo af sér tillögum sem voru samþykktar samhljóða í þinginu? Hverju svarar hæstv. fjármálaráðherra þeirri gagnrýni þegar þingmaðurinn segir frumvarpið auka á foringjaræði og lausung?

Hv. þm. Atli Gíslason rifjaði upp í ræðu sinni orð fjármálaráðherra frá umræðum um stjórnarráðsbreytingar 2007 þar sem hæstv. núverandi fjármálaráðherra ræddi um nauðsyn formfestu og stöðugleika og að ná yrði samstöðu um þau mál, stjórnarráðsmálin, að þau væru ekki augnabliksmál eða málefni líðandi stundar. Þá nefndi núverandi fjármálaráðherra stjórnskipunina, stjórnarskrána, stjórnarfarsreglur, grundvöll stjórnsýslunnar o.fl. Hví hefur hæstv. fjármálaráðherra breytt um skoðun? Þarf ekki lengur samstöðu um svo mikilvæg mál? Hvað varð til þess að hæstv. fjármálaráðherra breytti gjörsamlega um skoðun frá árinu 2007 um hvernig eigi að vinna þessi mál? Við hljótum að vilja fá svör við því.

Er það þannig, virðulegi forseti, að hæstv. fjármálaráðherra telji eðlilegt að krukka í þessi lög eftir hverjar kosningar? Það er nákvæmlega það sem verið er að bjóða upp á hér. Við hljótum því að kalla eftir útskýringum frá fjármálaráðherra til þingheims á þeim breytingum sem hafa orðið á skoðun hans á því hvernig eigi að vinna þessi mál og gagnrýni hv. þm. Atla Gíslasonar. Fjármálaráðherra bar þingmanninn svo sannarlega á höndum sér þegar hér var kynnt það sem kom út úr þingmannanefndinni. Hvað veldur sinnaskiptunum? (Gripið fram í.)