139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

afstaða ráðherra til frumvarps um Stjórnarráðsins.

[10:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég veit ekki betur en að það standi yfir umræður um það dagskrármál sem hv. þingmaður kýs að gera að umtalsefni í óundirbúnum fyrirspurnatíma. (GBS: Má maður ekki spyrja?) Ég get vel tekið þátt í þeirri umræðu eftir atvikum. Ég get líka farið yfir það að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir flutti tímamótaræðu í gær, (Gripið fram í: Svaraðu …) mjög athyglisverða ræðu (Gripið fram í.) þar sem hún fór yfir stefnu Framsóknarflokksins í málefnum Stjórnarráðsins og komst að þeirri niðurstöðu að frumvarp forsætisráðherra væri algerlega í samræmi við stefnu Framsóknarflokksins eins og hún var mótuð og frá henni gengið 2009.

Deilurnar sem stóðu hér 2007 voru fyrst og fremst um það hvernig þyrfti að standa að og undirbúa breytingar í til dæmis ráðuneytum. Það er algerlega gild umræða út af fyrir sig og við höfum verið að læra og þróa þá aðferðafræði. Hér er undir hinn almenni lagarammi um fyrirkomulagið innan Stjórnarráðsins, hvernig því er skipað í stjórnskipulegu tilliti. Það er verið að gera umbætur á þeim lagaramma inn í hvern síðan falla breytingar sem að sjálfsögðu þarf að undirbúa vel og tryggja að heppnist vel eins og hefur tekist hjá þessari ríkisstjórn. Eða eru menn ekki almennt sammála um að stofnun hinna stóru ráðuneyta, innanríkisráðuneytisins og velferðarráðuneytisins, hafi tekist vel og margar fleiri (Gripið fram í.) umtalsverðar skipulagsbreytingar sem þessi ríkisstjórn hefur haft kjark til að ráðast í? Hvatinn til þess er líka ærinn, við þær efnahagslegu aðstæður sem við búum við, að við þurfum að þora að endurskipuleggja og hagræða og spara í okkar rekstri eins og við mögulega getum. Þetta er óskapleg afdalamennska og íhaldssemi hjá sumum sem ég veit ekki hvert vilja fara í ræðum sínum, líklega aftur á 19. eða 18. öld ef þeir mættu ráða. Við erum að reyna að horfa til framtíðar og þróa hér nútímalega stjórnskipan og stjórnsýslu í anda þess sem hefur verið að gerast annars staðar á Norðurlöndunum sem eru þau lönd sem við berum okkur helst saman við og lærum af eftir atvikum. Ég tel að það séu gild (Forseti hringir.) og góð rök fyrir þessum breytingum. Þær þarf að sjálfsögðu að ræða enda stendur ekki á því að það hafi verið gert og að sjálfsögðu er alltaf æskilegt að ná sem bestu samkomulagi um mál ef það er í boði en „der skal to til“.