139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

staðsetning nýs öryggisfangelsis.

[10:50]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Allar götur frá því á sjötta áratug síðustu aldar hafa verið uppi áform um að reisa nýtt fangelsi. Deilur hafa hins vegar alltaf komið í veg fyrir að slík áform yrðu að veruleika. Menn hefur greint á um það hvar eigi að reisa fangelsið, hvort reisa eigi það á Litla-Hrauni eða bæta þar við byggingum. Í aðdraganda hrunsins, eins og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kann að muna, voru uppi áform hjá þáverandi ríkisstjórn um að reisa fangelsi á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við smíði nýrrar lögreglustöðvar. Síðan var horfið frá þeim ákvörðunum og lagst yfir hagkvæmnisútreikninga þar sem leitað var til bestu sérfræðinga. Þær skýrslur liggja allar fyrir og eiga allar að vera aðgengilegar. Þær eiga að sjálfsögðu að vera Alþingi Íslendinga aðgengilegar.

Við munum sennilega ræða þessi mál nánar í utandagskrárumræðu um þetta málefni sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hefur óskað eftir að fari fram og fer fram kl. hálftvö í dag, eftir því sem ég best veit.