139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Heilsustofnunin í Hveragerði.

[11:03]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem fram kemur hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að málefni Heilsustofnunarinnar í Hveragerði hafa verið töluvert í brennidepli í fjölmiðlum. Einhverra hluta vegna er það þannig með einstakar stofnanir sem eru sjálfseignarstofnanir og eru reknar sjálfstætt, að það vill gjarnan fara í fjölmiðla þegar eitthvað bjátar á og það virðist þurfa koma fyrst og fremst fram þar.

Málið er að stofnunin hefur verið rædd á undanförnum árum í sambandi við fjárlagagerðina og þar hefur þurft að taka á málum alveg eins og annars staðar í heilbrigðiskerfinu í sambandi við hagræðingu. Heilsustofnunin hefur gert það með myndarbrag og staðið við skuldbindingar sínar þar. Samningurinn við stofnunina rennur út um áramót og þess vegna hefur verið umræða um með hvaða hætti framlengja eigi þann samning. Það hefur verið rætt ítrekað í ráðuneytinu, tvisvar eða þrisvar sinnum af mér en síðast 4. júlí eins og kom fram hjá hv. málshefjanda. Þar var á fundi sem var að frumkvæði þingmanna óskað eftir því að ráðuneytið gæfi einhverjar yfirlýsingar eða skoðað yrði hvernig ætti að taka á málefnum stofnunarinnar. Þar sagði ég mjög skýrt að engin áform væru um að breyta samningum við Heilsustofnunina í Hveragerði og að ganga ætti til samninga við hana. Við mundum hugsanlega fara þar með einhverjar skýrari línur um í hverju verkefnið væri falið, þ.e. hvaða verkefni stofnunin hefði innan kerfisins. Þær forsendur mundum við vinna og ég gaf þá yfirlýsingu líka að stofnunin mætti ekki eiga von á neinni annarri meðferð en aðrar heilbrigðisstofnanir, þ.e. lækkun um 2–3% sem talað hefur verið um.

Þetta hefur alveg legið fyrir. Þess vegna kom mér það mjög á óvart að menn skulu vera að fara í uppsagnir á starfsfólki því það er ekkert í pípunum annað en að þessi stofnun verði starfandi áfram. Mér finnst það ekki sæmandi að beita uppsögnum með þessum hætti til að pressa á samninga. Þetta verður auðvitað að hafa sitt ferli. Búið er að vinna þessi gögn núna um hvernig eigi að fara í samningana. Það eru Sjúkratryggingar Íslands sem vinna samningagerðina við Náttúrulækningafélagið en ekki ráðherra.