139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Heilsustofnunin í Hveragerði.

[11:07]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Heilsustofnunin í Hveragerði hefur verið skilgreind sem heilbrigðisstofnun og er það í fjárlögum og nýtur stuðnings sem slík. Þar er að vísu rekin borgandi starfsemi líka, þ.e. starfsemi þar sem aðilar borga þjónustuna að fullu. Hún hefur verið notuð sem hvíldarúrræði og hefur ekki verið flokkuð sem heilbrigðisþáttur. Það er auðvitað hluti af samningagerðinni að við erum að kaupa þá þjónustu sem snýr að heilbrigðiskerfinu og þá þjónustu sem snýr að endurhæfingu, taka við sjúklingum sem hafa verið í aðgerðum á Landspítala o.s.frv. og það er hluti af því sem þarf að fara fram í viðræðunum við viðkomandi aðila.

Aftur á móti væri það undarlegt ef ég sem ráðherra gæfi út fyrir fram að það muni verða gengið frá samningum. Það er jafnfáránlegt að viðkomandi aðilar sem hafa fengið yfirlýsingu ráðherra beint í votta viðurvist skuli gefa sér að ólíklegt sé að samningar náist. Hvaða stofnun á Íslandi hefur verið sett út á klakann fyrirvaralaust með breytingum? Það hefur bara aldrei gerst og það stendur ekki til. Því þarf ekki að beita uppsögnum varðandi þetta mál og það kemur mér mjög á óvart og ég harma það. En þessi stofnun mun lifa áfram og við munum ná samningum en það er auðvitað ekki alveg óháð því hvaða kröfur menn gera.