139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[11:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Margréti Tryggvadóttur að þetta er svo sem ekki til mikils sóma hvernig gangurinn er í þinginu þessa dagana. En forseta er vissulega vandi á höndum. Hér mótmæla dagskránni sömu þingmennirnir og eru að kalla eftir því að fá meiri tíma til að setja fram sjónarmið sín um það dagskrármál sem er til umræðu.

Auðvitað ætluðum við að ljúka störfum í dag en þegar kallað er eftir því af þingmönnum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks að tjá sig frekar en þeir hafa þegar gert í nokkur hundruð ræðum, í 40 klukkustunda löngum umræðum um þetta stjórnarráðsmál þá er það auðvitað skylda forseta að reyna að verða við því og skapa svigrúm til þess, að þeir geti enn frekar komið að sjónarmiðum sínum í málinu og þannig neytt þess réttar sem þeir hafa og er ekki hægt að gera neinar athugasemdir við að þeir nýti sér. En ég held að það væri öllum (Forseti hringir.) farsælast ef menn kæmust að niðurstöðu um þær málamiðlanir sem augljóslega er hægt að ná saman um í þeim stærstu málum sem eru til afgreiðslu á septemberþinginu.