139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[11:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við erum að ræða 2. mál á dagskrá ansi ítarlega, þ.e. stjórnarandstaðan. Þetta er samt engin umræða vegna þess að enginn er til svara. Fram hafa verið bornar heilmargar spurningar, nákvæmar spurningar, heilmargar hugmyndir sem ég reifaði og ekkert hafa verið ræddar frekar, mörg sjónarmið hafa komið fram, en engin svör.

Framsögumaður málsins fer að tala hér í andsvari um vandamál Framsóknarflokksins. Ég bað um að hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, svaraði því hvort hann styddi þetta mál. Hann hefur ekki tekið þátt í umræðunni. Ég spurði Jóhönnu Sigurðardóttur í gær hvernig hún mundi beita þessum lögum. Ekkert svar. Ég spurði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, hvort hann styddi það að verkefni Evrópusambandsins yrðu tekin frá honum. Ekkert svar. Þetta er engin umræða, frú forseti.