139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[11:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu eru mörg dæmi um að málin séu rædd ítarlega á þingi og þarf kannski ekki að leita mjög langt aftur til að finna dæmi um slíkt. Sú umræða sem á sér stað um stjórnarráðsmálið er ekki komin hálfa leið miðað við sum þeirra mála þannig að kannski er ekki enn komið að því að hægt sé að skamma okkur þingmenn fyrir að við séum að ræða málið of ítarlega og of mikið.

Þegar við erum í tímapressu, sem við erum klárlega samkvæmt starfsáætlun þingsins, er mjög sérkennilegt að vera með mjög umdeilt mál á dagskrá, mál sem þarfnast ítarlegrar umræðu, og það án þess að nokkrar skýringar liggi fyrir á því að það liggi á að afgreiða það, engar dagsetningar eða eitthvað slíkt. Það er það sem við erum að ræða, af hverju slíkt mál er haft í forgrunni.

Ég vil skora á hæstv. forseta að kanna möguleikana á því að þetta mál sé einfaldlega tekið af dagskrá þannig að við getum farið að ræða hin málin, afgreiða þau þá eftir því sem við best getum. Við getum að sjálfsögðu væntanlega ekki afgreitt þau öll en að taka þau mál sem við svo sannarlega getum afgreitt og liggur á. Það er komið mál til að við förum að tala um málin sem skipta þjóðina máli, fólkið og fyrirtækin en það er ekki verið að gera vegna þess að (Forseti hringir.) hæstv. forseti og hæstv. forsætisráðherra hafa ákveðið að þetta mál skuli vera á dagskrá.