139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[11:20]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ekki er hægt að halda öðru fram en að við 2. umr. þessa máls hafi það hlotið mjög ítarlega umræðu, trúlega 10–20 sinnum lengri en alla jafna við frumvörp í 2. umr., og alveg útilokað annað en staðhæfa að málið hafi verið rætt ítarlega út frá öllum hliðum og allir þeir sem það vilja og kjósa hafi komið sjónarmiðum sínum rækilega á framfæri.

Þá stendur eftir að ef stjórnarandstaðan getur ekki sætt sig við það, þegar málið hefur fengið jafnítarlega umræðu, að það fái lýðræðislega lúkningu, að það gangi til atkvæða og meiri hluti alþingismanna ráði niðurstöðu þess að þessari ítarlegu og löngu umræðu genginni. Þá hlýtur það að vera markmið stjórnarandstöðunnar að reyna að þvinga málið út í ljósi þess að septemberþingi verður að ljúka núna fyrir 1. október þegar nýtt þing er sett og beita þannig málþófinu til að koma málinu fyrir kattarnef en að fá ekki lýðræðislega niðurstöðu. Ég skora á stjórnarandstöðuna, að því gengnu að menn nái ekki saman um málamiðlun, að ljúka þessu í dag þannig að hægt sé að ganga til atkvæða svo að málið fái lýðræðislega niðurstöðu.