139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[11:22]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Sem tiltölulega ungur þingmaður í starfi þá er mér skapi næst núna að ganga út úr þessum þingsal og mæta ekki aftur til starfa fyrr en þingið er orðið starfhæft. Hér heldur stjórnarandstaðan þinginu í gíslingu, hindrar þingstörf í krafti minnihlutavalds, heimtar rýmri tíma en kvartar um leið undan lengd þingfunda. Við höfum þingsköp, við höfum forsætisnefnd og formenn þingflokka sem ráða ekkert við stöðuna, virðist vera. Þingið er orðið að athlægi í augum þjóðarinnar og stjórnarandstaðan er vísvitandi, held ég, að sverta ásýnd þingsins til að sverta um leið ásýnd stjórnarmeirihlutans og ríkisstjórnarinnar. Þetta er ömurleg aðferðafræði, hún er gersneydd málefnalegu innihaldi og ögrun við lýðræðisskipan þingræðisins.