139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[11:27]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Forseti leggur fram tillögu um kvöldfund, það er samkvæmt þingsköpum. Samkvæmt þingsköpum er líka heimild til að ræða mál í lengri tíma en þingsköp segja til um. Það er farið að þingsköpum í umræðum um Stjórnarráðið. Það er líka réttur þingmanna að geta greitt atkvæði um mál þegar umræðu er lokið en það skýtur skökku við, frú forseti, að í málamiðlunartillögu, sem lögð er fram í þessu máli, sem heitir Stjórnarráðið, er lagt til að ekki sé farið að þingsköpum. Þess vegna finnst mér það umræðuvert ef málamiðlunin felst í því að þingmenn eigi ekki að fara að þingsköpum og breyta eigi umræðuhefðinni sem málamiðlun í þessu máli. Það stangast á við þingsköp en beiðni forseta um fund stangast ekki á við þingsköp.