139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[11:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég ræði enn 2. mál á dagskrá af 46 og umræðan hefur verið þannig að það er eins og menn séu að tala út í loftið eða tala við stein. Engu er svarað, ekki einu sinni framsögumaður málsins hefur svarað því hvort það sé galli í breytingartillögum meiri hlutans sem bent hefur verið á.

Við fáum ekki heldur svör við því þegar hv. þm. Atli Gíslason segir að grundvöllurinn fyrir frumvarpinu sé ekki til staðar, því er ekki svarað heldur. Ég fæ ekki að vita það sem ég held að allt Alþingi ætti að fá að vita, hvernig hæstv. forsætisráðherra ætlar að nota þessi lög. Við fáum ekki að vita það. Ætlar hún að taka Grímsstaði á Fjöllum frá innanríkisráðherra til sjálfrar sín til að taka ákvörðun? Ætlar hún að taka Evrópusambandsaðildina frá hæstv. sjávarútvegsráðherra? Ætlar hún að taka hvalveiðar frá sjávarútvegsráðherra? (Forseti hringir.) Ætlar hún að taka neðri hluta Þjórsár frá umhverfisráðherra?