139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[11:32]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Mér finnst lítið leggjast fyrir hreystimennin í stjórnarandstöðunni að þola ekki að vaka tvær nætur í röð. Þau munu þá lítt duga til að stjórna landinu, enda stendur sem betur fer ekki til að þau taki við stjórnartaumunum. (Gripið fram í: Velkominn á fætur.)

Ég kem hins vegar hingað upp til að hrósa stjórnarandstöðunni. Mér finnst ánægjulegt að hún skuli koma ærlega til dyranna eins og hún er klædd. Menn segja það bara hreint út að þeir séu í málþófi. Það sagði hv. þm. Jón Gunnarsson í gær. Þá verða menn hins vegar að gera sér grein fyrir því ef þeir notfæra sér réttinn til málþófs að stjórnarliðið notfærir sér auðvitað sinn lögbundna rétt til að hafa fundi daga sem nætur. (Gripið fram í.)

Það er athyglisvert að sjá hvernig stjórnarandstaðan liggur í þessu máli. Þrír þingmenn Framsóknarflokksins hafa lýst yfir vilja til að ljúka málinu. Heill flokkur í stjórnarandstöðunni hefur sömuleiðis gert það. Það eru þá bara talíbanarnir í Sjálfstæðisflokknum sem vilja brjóta hér leikreglur lýðræðisins. (Gripið fram í.)

Ég vil svo, frú forseti, átelja vini mína í öllum flokkum (Forseti hringir.) fyrir að hafa ekki látið mig vita af því að það var næturfundur í nótt því að eins og hv. þingmenn vita þá hef ég af fáu öðru meira gaman en því.