139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

málefni Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur.

[12:20]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Á síðasta ári var ákveðið að stofna nýjan viðskiptabanka og sparisjóð í kringum skuldir og eignir Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur sem voru í eigu ríkisins. Fljótlega kom í ljós að virði eignasafna Byrs og SpKef var ofmetið og að ríkissjóður þyrfti að auka verulega eiginfjárframlag sitt til þeirra. Á þeim tímapunkti létu stjórnvöld Byr og SpKef renna inn í Byr hf. og Landsbankann eins og fram hefur komið án heimilda frá Alþingi.

Frú forseti. Staðan í dag er sú að það er búið að einkavæða allt bankakerfið á nýjan leik og þar hafa hagsmunir fjármagnseigenda verið tryggðir algerlega. Það hefur verið gert án þess að skuldsett heimili hafi fengið sanngjarna leiðréttingu, án þess að skuldsett heimili hafi fengið þá leiðréttingu sem þeim bar og þau þurftu sannarlega á að halda. Þetta er orðið viðurkennt.

Það er því nokkuð sérstakt í ljósi þess sem lagt var upp með á sínum tíma að bankarnir hafi verið endurreistir á grunni þessara ofmetnu eigna og stjórnvöld hafi þar með blessað eignaupptöku hjá skuldurum til að tryggja hærra virði bankanna. Þetta sjáum í reikningum bankanna en á sama tíma og þetta er gert virðist það eina sem farið er í þrot vera sparisjóðakerfið. Það var einmitt það eina sem lagt var upp með að ætti að bjarga áður en lagt var af stað.