139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:26]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál snýst náttúrlega um forgangsröðun í þinginu, fyrir utan þá augljósu annmarka sem eru á þessu frumvarpi frá hæstv. forsætisráðherra. Það er margbúið að benda á það í umræðunni undanfarna daga hvílíkir annmarkar eru á þessu máli. Og það er engin leið að fá hæstv. ráðherra eða hv. stjórnarmeirihluta til að ræða þetta mál á einhverjum efnislegum nótum. Menn eru meira og minna fjarri í umræðunni og taka ekki þátt í henni.

Mig langar að ítreka þá spurningu sem ég beindi til hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar: Hvaða leið er út úr þeirri klemmu sem hæstv. ríkisstjórn hefur komið Alþingi í með þetta mál? Það liggur engin forgangsröðun fyrir á Alþingi um þau mál sem þarf að klára. Hér eru 50–60 mál komin á dagskrá sem öll eiga að klárast. Ekkert þeirra mála varðar með beinum hætti þann vanda sem íslenskt efnahagslíf er í. Hvar eru öll málin sem eru brýnust til að hjálpa heimilum í þessu landi? (Gripið fram í.) Hvar eru þau? Þau eru ekki einu sinni á dagskrá af því að forgangsröð ríkisstjórnarinnar er öll í hennar eigin þágu, (Forseti hringir.) ekki fyrir heimilin í landinu.