139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður velti því fyrir sér hvernig hæstv. forsætisráðherra kynni að nýta sér það vald sem hún biður um með því frumvarpi sem við ræðum hér. Það væri fróðlegt að heyra hv. þingmann velta því fyrir sér út frá eigin reynslu því að hv. þingmaður hefur sjálfur setið í ríkisstjórn sem ráðherra. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að hæstv. forsætisráðherra gæti notað vald sitt til að tryggja fullkomið oddvitaræði í ríkisstjórn og herða enn tökin á ríkisstjórn og þinginu?

Hv. þingmaður benti líka á að við gætum kannski lært ýmislegt af sögu þessarar ríkisstjórnar. Þar er ýmsar viðvaranir að finna — Icesave-málið og meðferð þess er eitt, Evrópusambandsumsóknin er annað — þar sem ekki aðeins eru notuð þau tæki sem gert er ráð fyrir í lögum (Forseti hringir.) heldur önnur tæki líka, eins og þegar menn eru dregnir í hliðarherbergi og lesið yfir þeim.