139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:58]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór vel yfir sviðið í ræðu sinni og kom inn á m.a. verkstjórn og verksvið verkstjóra í margumræddri þingmannanefnd og skýrslu hennar sem samþykkt var í þinginu. Þá var það meginniðurstaðan að auka þyrfti sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, leggja meiri áherslu á eftirlitshlutverkið og auka fagmennsku við undirbúning löggjafar. Það kemur jafnframt fram í skýrslunni og hefur líka komið fram í ræðum þingmanna, til dæmis hv. þm. Atla Gíslasonar sem þingmaðurinn nefndi, að brýnt sé að Alþingi taki starfshætti sína til endurskoðunar, verji og styrki sjálfstæði sitt og marki skýr skil á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, Alþingi eigi ekki að vera verkfæri í höndum framkvæmdarvalds og oddvitaræðis.

Nú er einmitt að finna hið pólitíska bitbein í 2. og 4. gr. þar sem verulegt vald er fært yfir til ráðherrans. Er það mat (Forseti hringir.) þingmannsins að frumvarpið gangi þvert á skýrslu (Forseti hringir.) þingmannanefndarinnar og niðurstöðu hennar?