139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:59]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að þarna hafi hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson komið að kjarna málsins. Ef við snúum þessu við, hvernig er hægt að færa rök fyrir því að það sé í anda niðurstöðu þingmannanefndarinnar?

Hv. þingmaður nefndi það sem allir í þingmannanefndinni voru sammála um, að auka eigi sjálfstæði þingsins, bæta vinnubrögðin, fagmennsku og sömuleiðis að sjá til þess að þingið verði ekki verkfæri í þágu framkvæmdarvaldsins. Ef við tökum fagmennskuþáttinn, vinnubrögðin í þessu gríðarlega deilumáli, er lögð mikil áhersla mikilvægi þess að koma þessu vonda máli í gegn og þrjóskan er slík að öllu er ýtt frá. Svo ætla menn kannski einhvern tíma að losa stífluna, ég veit það ekki. Hvernig verða þá vinnubrögðin með þau 46 mál sem við klárum svo í framhaldinu? (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Svar mitt er mjög einfalt: Þetta er þvert á niðurstöðu þingmannanefndarinnar.