139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:04]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við höfum síðustu daga og nætur verið að reyna að skýra ákveðin álitamál í þessu frumvarpi hæstv. forsætisráðherra um formbreytingu á Stjórnarráðinu. Sitt sýnist hverjum um það mál en þó hefur umræðan verið sérkennileg að því leytinu, eins og oft er um átakamál hér inni, að tilgangurinn virðist helga meðalið. Það virðist vera aðalatriðið að keyra málið í gegn þegar búið er að þvæla því í gegnum fagnefndir þingsins. Hægt er að nefna fjölmörg dæmi um slíkt og ætla ég ekki að fara að rifja Icesave-málið upp eða einhverja kosti þeirra. Síðasta vor komu sjávarútvegsfrumvörp hér inn sem ekki voru hæf til að fara í umræðu og á síðustu dögum þingsins — ég man ekki hvort það voru 10 eða 12 dagar eftir þegar þau komu fram, hefðu átt að koma fram tveimur mánuðum fyrr — var engu að síður reynt að þvinga þau í gegn með þeim afleiðingum að öllum öðrum þingstörfum sem fyrirhugað var að reyna að klára í ýmsum málum var ýtt til hliðar og þau komust ekkert á dagskrá þingsins. Kannski gleymdust sum þeirra hreinlega eins og hefur komið fram, og var hálfklúðurslegt af hálfu þeirra sem fara með stjórn í þinginu, eins og olíuleitarmálið og hlutabætur atvinnuleysisbóta svo að dæmi séu tekin.

Því var ekkert óskynsamlegt að setja þennan septemberstubb á tvær vikur til að ljúka slíkum málum og einnig til að taka upp önnur mál sem menn höfðu ekki náð að klára í vor en voru komnir á endasprettinn með og var kannski skynsamlegt að klára í stað þess að þurfa að hefja ferilinn að nýju 1. október nk. Ástæðan fyrir því að ég byrjaði á að ræða þetta hér er að mér hafa satt best að segja blöskrað þau vinnubrögð sem viðhöfð eru trekk í trekk undir lok þingstarfa í hverri þinglotu. Ég er hissa á því að menn skuli ekkert hafa lært af því hvernig síðasta vor endaði í krampakenndum hætti í málum sem voru keyrð í gegn en hent út á síðustu metrunum, mikilvæg mál sem hefðu þurft að koma inn fyrr en einnig svo illa unnin mál að einasta niðurstaðan, eins og með sjávarútvegsfrumvarpið til dæmis, hið stóra svokallaða, var hreinlega vísað aftur heim til föðurhúsanna og óskað eftir umsögnum. Það hefur allt farið á þann veg að málið hafi verið illa unnið, lagasetning hafi verið svo óvönduð og hefði haft svo alvarlegar afleiðingar í för með sér að það eina sem hægt hafi verið að gera sé að hefja það að nýju.

Það mál sem við ræðum hér er ekki þannig. Það er búið að vinna það heilmikið og það eru margir þættir sem horfa til betri vegar og hefur verið fjallað um, bæði í þingmannaskýrslunni, sem var unninn í tengslum við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, og þeim ábendingum sem þar komu fram — við sem sátum í þingmannanefndinni tókum undir þær ábendingar og síðan var það samþykkt í þinginu. Fjölmargir þeirra þátta hafa ratað inn í frumvarpið. En hér hafa líka ratað inn í frumvarpið hlutir sem gera það að verkum að þetta mál er í bullandi ágreiningi, ekki bara pólitískum heldur líka hugmyndafræðilegum hvað það varðar að menn hafa ekki getað skýrt og ekki fengið eðlilega umræðu í þinginu um það af hverju nauðsynlegt er að færa þetta vald frá þinginu til forsætisráðherra, hvað varðar 2. og 4. gr. frumvarpsins, í stað þess að hafa það eins og verið hefur, og það þrátt fyrir þær niðurstöður sem komu fram í rannsóknarskýrslu Alþingis og í þingmannanefndinni sem fjölmargir þingmenn hafa farið yfir og ég kem kannski aðeins betur inn á á eftir.

Engu að síður er þetta mál sett á dagskrá sem og nokkur önnur sem hafa tekið verulegan tíma þingsins vegna þess að um þau var ekki sátt. Af hverju í ósköpunum var sett upp sú dagskrá að hafa níu daga til að klára þessi mál ef hugmyndin var sú að klára 46 mál sem eru komin á dagskrá núna? Hverjum dettur í hug að það sé hluti af vönduðum og faglegum vinnubrögðum þingsins að klára tæplega 50 mál á níu dögum? Það er óskiljanlegt og ég get ekki sleppt því tækifæri sem ég hef hér til að taka þetta enn og aftur upp vegna þess að eitt af því sem fjallað var um og allir samþykktu var að auka þyrfti fagmennsku við undirbúning löggjafar og vanda þá vinnu sem við vinnum hér. Gerðar hafa verið samþykktir þar að lútandi að gagnrýna harðlega þá stjórnsýslu sem var viðhöfð á árum áður.

Ég get ekki séð að það eitt að setja haustþingið, þennan stubb sem átti að nýta til að klára nokkur önnur mál — og það var augljóst að þegar þingið setur upp þessa dagskrá er ætlast til þess að þetta gangi upp. Í næstu viku var fyrirhugað að senda fólk úr landi í stórum stíl, utanríkismálanefnd, aðila í Norðurlandaráði og jafnvel fleiri. Þingið sjálft skipulagði það þannig að ákveðin mál yrðu kláruð og hlýtur að hafa velt því fyrir sér hvort tíminn dygði til þess. Reglulega hefur farið fram umræða um fundarstjórn forseta, um það hverjir stjórna þinginu. Það er því algerlega óskiljanlegt að í dag, á síðasta degi, skuli 46 mál vera á dagskrá, á degi sem var ætlaður til að klára þessi mál, og enn eru fjölmörg mál sem sátt var um og hefðu getað farið í gegn á eðlilegan hátt með eðlilegri umræðu. Við hefðum þurft að vera búin að afgreiða þau en í stað þess erum við í þessari umræðu um stjórnarráðsbreytingar og erfitt er að skilja af hverju þarf að klára það hér og nú. Það fæst ekki neitt svar við því af hverju þarf að klára það í september. Er meiningin að taka þær heimildir sem forsætisráðherra fær með þessu og fara að praktísera þær strax í næstu viku? Er það hugmyndafræðin? Af hverju fáum við þá ekki svör við því hvaða hugmyndir eru uppi um að nýta þessar heimildir og þær breytingar sem þarna eru?

Ég ítreka að í frumvarpinu er fullt af jákvæðum þáttum sem byggja að einhverju leyti á viðbrögðum við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem og öðrum þeim þáttum sem menn hafa talið að væri skynsamlegast og hafa batnað í meðförum nefndarinnar.

Það er líka hægt að taka þá umræðu hér af hverju í ósköpum ekki sé verið að ræða önnur mál. Í dag kom til að mynda upp umræða um það að hjá Náttúrulækningafélaginu í Hveragerði væri fyrirhugað að segja upp öllum starfsmönnum vegna þess að þeir fengju ekki svar frá framkvæmdarvaldinu um það hvort þeir fengju þjónustusamning eður ei. Það er ekki sérstaklega jákvætt að nota þá pressu að öllum starfsmönnum verði sagt upp, það er óeðlileg pressa, það ógnar að óþörfu starfsöryggi starfsmanna sem og stofnuninni sjálfri.

Því má hins vegar ekki gleyma þegar þetta er rætt að þessi stofnun hefur þurft að sæta því á liðnum árum, til að mynda þegar hv. þm. Álfheiður Ingadóttir var heilbrigðisráðherra, að með eins eða tveggja daga fyrirvara var lagt til að skera niður um 50% á síðustu dögum í fjárlagaumræðunni. Í fjárlagafrumvarpinu í fyrra dúkkaði allt í einu upp 30% niðurskurður þannig að það er eðlilegt að þeir sem fara þar með stjórn séu hreinlega hræddir við framkvæmdarvaldið og framkvæmdarvaldið hefur gríðarlegt vald, við vitum það.

Í dag hafa fangelsismál líka verið rædd og það væri mikilvægt — ef menn eygja möguleika á að setja af stað framkvæmdir á næstu mánuðum, fjárfestingu, uppbyggingu húsnæðis, sem mundu þá þýða atvinnu og leysa þann bráða vanda sem er í þeim málaflokki — að taka slíkt mál til umræðu í þinginu, að ekki sé minnst á atvinnumál almennt til að reyna að minnka atvinnuleysið eða skuldamál. En af þessum 46 málum sem eru á dagskrá í dag er aðeins eitt mál sem mundi nýtast í þeim tilgangi og er það þá meira að segja að hluta til til lengri tíma litið en ekki til að koma inn í og laga aðstæður skuldara í dag. Það er mál nr. 22, ef ég man rétt, sem sagt málefni Íbúðalánasjóðs, um að heimila honum að veita óverðtryggð lán.

Öllu þessu er ýtt til hliðar vegna þess að hæstv. forsætisráðherra ætlar að koma þessu stjórnarráðsfrumvarpsmáli sínu í gegn og það þrátt fyrir að fjölmargir þingmenn hafi komið — og ég vil sérstaklega geta þess að í nótt flutti hv. þm. Atli Gíslason mjög málefnalega og rökfasta ræðu og rétt er að minnast þess að Atli var formaður nefndar sem þingið fól að bregðast við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Hann fór yfir þetta mál á mjög málefnalegan hátt og sýndi fram á það í ræðu sinni að hér er verið að ganga þvert á niðurstöður þingmannanefndarinnar hvað það varðar að minnka oddvitaræði og auka formfestu.

Þeir sem hafa þó talað í þessu máli, nokkrir þingmenn stjórnarliða, hafa gjarnan komið upp og rætt um nauðsyn þess að hér sé sveigjanleg stjórnsýsla. En það var einmitt það sem hvað harðast var gagnrýnt að í okkar litla kunningjasamfélagi, þar sem allir þekkja alla, var svo auðvelt að fara stuttar boðleiðir. Við höfum oft og tíðum talað um það sem kost en þegar við gerum þetta upp, þegar kerfið hrynur, stjórnsýslan bregst og eftirlitskerfin bregðast, kemur í ljós að þessar stuttu boðleiðir, þessi mikli sveigjanleiki, voru gallinn í kerfinu. Þess vegna var niðurstaðan sú að auka yrði formfestuna.

Sums staðar í frumvarpinu er verið að fylgja eftir þeim niðurstöðum sem þingmannanefndin komst að og var samþykkt í þinginu, til að mynda varðandi fundargerðir og hæfisnefndir og annað í þeim dúr. Flest af því er til bóta og ég held að búið sé að ræða það nokkuð vel. Eftir stendur kjarninn í frumvarpinu, þ.e. 2. og 4. gr., þar sem valdheimildir eru færðar frá þinginu, sjálfstæði þingsins og vald þingsins er skert og það fært til forsætisráðuneytisins hvernig ráðuneytin eru uppsett.

Það eru nokkur þættir þarna er varða aðstoðarmenn ráðherra sem ekki hafa fengist nægilegar skýringar á og það er líka varðandi 5. gr., sérstaklega breytingartillögur sem þar eru, sem er heldur ekki fullútskýrt og þyrfti að ræða og sjálfsagt væri hægt að gera eitthvað af því í nefndinni þegar málið fer úr 2. umr. í þá 3. En það er þess vegna, frú forseti, augljóst að málið er ekki tilbúið, það er ekki hægt að klára það á þeim stutta tíma sem þingið ætlaði sér í það.

Nokkrir hafa komið fram og talað um að þetta sé í anda þess sem gerist á Norðurlöndunum og þess vegna eigum við að taka þetta upp. Það hefur jafnvel verið sagt að menn hafi haft þetta á stefnuskrá sinni á árum áður. Það er sama hvaða skoðun menn höfðu á því hvernig stjórnskipunin ætti að vera fyrir hrun, fyrir útgáfu á rannsóknarskýrslu Alþingis og viðbrögðum þingmannanefndarinnar við henni, þá gildir það einfaldlega ekki lengur. Menn hljóta að þurfa að endurmeta skoðun sína, endurmeta þá sýn sem menn höfðu á því hvernig stjórnskipun ætti að vera og taka fullt mark á þeim niðurstöðum sem koma fram í skýrslu þingmannanefndarinnar sem allir þingmenn samþykktu. Ekki voru gerðar athugasemdir við þá niðurstöðu. Það er kannski rétt í þessu sambandi og verður sjálfsagt aldrei of oft farið yfir það að ítreka þá þætti sem þar koma fram.

Þar er einmitt sagt að Alþingi álykti að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar. Það má alveg fullyrða að verið sé að því á ýmsan hátt, meðal annars með þingskapanefndarvinnunni. Þar var aftur á móti unnið á annan veg. Þar var unnið með öllum þingflokkum til að reyna að ná sameiginlegri niðurstöðu sem menn yrðu sáttir við enda gekk umræðan prýðilega í vor þrátt fyrir alla þá spennu sem þar var.

Þetta mál er unnið á annan hátt. Þegar ljóst er að um það er talsvert ósætti er reynt að keyra það í gegn á allt of stuttum tíma, það áttu allir að sjá. Meira að segja var það svo krampakennt að þegar taka átti það úr nefndinni var ekki meiri hluti fyrir því. Það þurfti að skjóta því inn í niðurstöðuna að ríkisstjórnarfundir yrðu teknir upp og hljóðupptökur geymdar í 30 ár og það átti að leysa ákveðinn vanda sem gerði það að verkum að það var meiri hluti í nefndinni til að taka málið út. Um þetta er hins vegar ekki meiri hluti í þinginu, ekki af því að dæma sem ég hef heyrt talað um þetta. Það eru alla vega mjög margir sem segja að þeim finnist þetta vera atriði sem þurfi að skoða miklu betur.

Ef hugmyndin var að ljúka þessu máli með umræðu í einhvern tiltekinn tíma og setja það síðan í nefnd, afgreiða það aftur þaðan og klára núna verður að segja eins og er að það yrði aldrei nema sýndarskoðun að skoða þann þátt í málinu — ef það ætti að fara í nefnd sama dag og málið yrði klárað, ef hugmyndin var að klára og ljúka þingstörfum í dag.

En hvernig hefði þetta átt að vera? Vissulega hefur umræða um breytingar á Stjórnarráði og stjórnskipun farið fram áður. Í áðurnefndri ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar fór hann yfir sýn hæstv. fjármálaráðherra og formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á haustþingi 2007 á það hvaða mál skynsamlegt væri að menn næðu samstöðu um án þess að standa í átökum eins og eru um það mál sem við ræðum hér í dag. Það kom fram í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar, sem byggist á skoðun hæstv. fjármálaráðherra, að þetta væru ekki augnabliksmál, ekki málefni líðandi stundar, ekki málefni sem eiga að bjarga okkur í gegnum eitt, tvö eða þrjú ár. Hver eru svo þau mál svo að ég vitni í ræðu þingmannsins? Hann nefndi stjórnskipunina, stjórnarskrá, stjórnarfarsreglur, grundvöll stjórnsýslunnar, þar með talin lög um Stjórnarráð.

Ég spyr því: Af hverju í ósköpunum erum við að setja þetta mál í þennan farveg ef ný stjórn kemur svo eftir næstu kosningar og ætlar að breyta þessu aftur í sama far og áður eða gera eitthvað nýtt? Við verðum að ná saman í þessum grundvallarmálum, kjördæmaskipan, kosningareglum og öðru slíku. Við náðum saman í þingskapanefndinni um breytt þingsköp þannig að það er ekki það að við getum ekki náð saman. Hins vegar er ekki hægt að beygja sig undir hvaða ofbeldisvilja sem er. Hér er verið að auka forseta- og oddvitaræði (Forseti hringir.) þrátt fyrir allt sem áður hefur verið sagt. (Forseti hringir.) Við það verður ekki unað. Ég tel nauðsynlegt að breyta 2. og 4. gr. Án þess verður, held ég, ekki samkomulag í þinginu.