139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ræða hv. þm. Atla Gíslasonar var í raun ógnvekjandi fyrir þá sem hafa rætt þetta frumvarp fram og til baka vegna þess að hún kippti grunninum undan frumvarpinu. (VigH: Já.) Það byggir á því. Frumvarpið er sagt byggja á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar. Svo kemur í ljós að formaður seinni nefndarinnar segir það ekki rétt og þá er grundvellinum undan frumvarpinu kippt í burt. Það er ekki lengur til þess að styrkja Alþingi eins og rannsóknarnefnd Alþingis lagði áherslu á og þingmannanefndin líka. (Gripið fram í: Hvað voru margir í þessari nefnd?) Það er einmitt málið. Það er spurning hvort hv. allsherjarnefnd kalli ekki málið til sín og ræði við hv. þm. Atla Gíslason og fleiri í þeirri nefnd og fái að vita hvort þetta geti verið rétt. Það er ógnvekjandi þegar maður heyrir að grundvellinum í frumvarpinu hafi verið kippt í burt og það vinni í raun öndvert á það sem ætlað var.