139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að halda aðeins áfram á sömu nótum og hv. þingmenn voru að ræða. Í ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals kom fram og hefur reyndar komið fram í ræðum hans bæði í dag og í gær þar sem hann kallaði eftir hæstv. innanríkisráðherra, en hann skrifaði grein vorið 2010 þar sem hann fjallaði einmitt um rannsóknarskýrslu Alþingis og þá skýrslu sem kom frá nefnd forsætisráðherra sem var að vinna sömu vinnu. Nú er sagt í frumvarpinu að það sé byggt á báðum þessum skýrslum, en hæstv. innanríkisráðherra sagði að það sem er í skýrslu forsætisráðherra eða svokallaðri Gunnars Helga-skýrslu sé þvert á það sem stóð í rannsóknarskýrslunni þar sem talað er um að þörf sé á að skerpa á forustuhlutverki forsætisráðherra í ríkisstjórn og aðrir ráðherrar eigi að sitja í skjóli hans og megi ekki orka tvímælis hverjum beri að knýja á um ábyrgð þeirra þegar ástæða þyki til. (Forseti hringir.) Þarna virðist sem sagt vera komin uppspretta þess sem frumvarpið byggir á. Mig langar að biðja þingmanninn að (Forseti hringir.) meta það og segja okkur hinum hvort hann telji að það sé ekki verið að byggja á skýrslu þingmannanefndar eða skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, heldur sé fyrst og fremst (Forseti hringir.) verið að byggja á þessari skýrslu.