139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef í hyggju að taka til máls í þessari umræðu þegar mér sýnist hún vera komin undir lok. Ég hef til þessa 20 mínútna ræðu og ætla að flytja hana þegar mér sýnist umræðan vera komin á lokastig. Þá get ég tekið afstöðu til þeirra spurninga sem fram eru komnar og það er réttur minn að ákveða sjálfur hvenær ég geri það. Það verður ekki ákveðið af hv. þm. Pétri Blöndal, sama hversu mikið hann hækkar róminn í ræðustólnum eða hversu miklum vonbrigðum hann verður fyrir. Hann hefur ekki stjórn á því hvenær ég fer í ræðustól eða hvað það er sem ég segi.

Ég heyrði ekki betur en hv. þingmaður hefði verið með einkunnagjöf um framsöguræðu mína sem tók klukkutíma eða tæplega það um nefndarálitið. Það er skætingur þegar ég tek til máls en hv. þingmanni virðist vera leyfilegt að segja það sem honum dettur í hug.