139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er að sjálfsögðu hárrétt greining. Stjórnarliðar eru hræddir við þetta. Það er búið að segja þeim hvað þetta getur leitt til mikilla einræðistilburða hjá sterkum einstaklingi sem hugsar þannig. Ég er ekki að segja að núverandi hæstv. forsætisráðherra muni beita því. Það er líka hárrétt að samkvæmt 2. gr. með eða án þingsályktunar muni hann samkvæmt breytingartillögunni geta stofnað ráðuneyti eins og honum dettur í hug, eins og ég hef margoft nefnt. Hann getur haft tvö ráðuneyti í heild, annað fyrir sig og hitt fyrir hæstv. fjármálaráðherra og það mundi bara spanna alla stjórnsýsluna eins og hún leggur sig, samkvæmt þessu frumvarpi — það getur meira að segja verið eitt ráðuneyti.

Það er hárrétt. Ég held að hv. stjórnarliðar séu logandi hræddir við þetta vegna þess að þeir eru búnir að heyra í umræðunni að þetta geti verið hættulegt, það geti kippt burt málum sem er ágreiningur um og menn eru ekki sáttir við. Það er rétt skilið að þeir eru hræddir.