139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur gefist vel í 40 ár, það er hverju orði sannara. Það er í rauninni alveg sjálfsagt að ætlast til þess að framkvæmdarvaldið haldi áfram að virða vilja Alþingis, þ.e. að þurfa að leita til Alþingis um þær breytingar sem framkvæmdarvaldið vill gera í jafnveigamiklu máli og hér er um að ræða.

Dæmið sem við hv. þingmaður höfum rætt hér er mjög gott dæmi um það sem mundi breytast. Það verður ekki hægt að gera athugasemdir eða breyta málinu, jafnvel koma í veg fyrir að ráðuneytum yrði breytt eða mál flutt á milli o.s.frv., ef frumvarpið verður að veruleika. Það kann að vera, herra forseti, að ástæðan fyrir því að okkur gengur svona illa að ná fram þeim breytingum sem við þurfum að ná fram sé sú að foringjaræðið í stjórnarflokkunum er enn til staðar. Hún er enn til staðar, þessi knýjandi þörf foringjanna af gamla skólanum að ráða og drottna yfir öllum og öllu. Þar af leiðandi gengur okkur illa að gera þær breytingar sem við þurfum að gera á samfélaginu. Það er mikið af nýjum þingmönnum hér. Það er mikið af nýju fólki í öllum flokkum og nýir formenn við stjórn á sumum stjórnmálaflokkunum. Það hefur svo sannarlega sýnt sig hér á Alþingi, en enn er verið að slást við gamla drauga sem við þurfum í rauninni að koma í skilning um að það eru breytingar (Forseti hringir.) yfirvofandi í samfélaginu.