139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:24]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Ég er andsnúinn frumvarpinu og hef fært fyrir því rök í þremur, fjórum ræðum sem ég hef flutt. Í þetta sinn var ég hins vegar reyndar að reyna að hvetja til þess að við færum í efnislega umræðu um hluti út frá forsendum sem við hlytum að geta komið okkur saman um.

Ég hef líka sagt, t.d. varðandi aðstoðarmannaspurninguna svo ég taki dæmi, að það er mál sem mér finnst að menn eigi alveg að skoða. Mér finnst hins vegar að málið sé ekki alveg hugsað og menn séu ekki búnir að koma sér almennilega til skynsamlegra verka í þeim efnum. Nákvæmlega sama er t.d. með aðra spurningu sem oft hefur verið borin upp hérna, þá sem lýtur að upptökum á ríkisráðsfundum, það eru kostir og gallar við þá hugmynd. Ég held að bæði þessi dæmi sem ég tek hérna segi okkur að þetta mál sé einmitt dæmigert um að það geti beðið sér til batnaðar. Þess vegna hefði ég viljað segja sem svo: Skynsamlegt er að leggja málið til hliðar núna og (Forseti hringir.) reyna að ná víðtækri pólitískri samstöðu um þetta veigamikla mál.