139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að við munum það báðir, ég og hv. þingmaður, að ég hafði einn pólitískan aðstoðarmann. Hins vegar var mér til aðstoðar mjög fært fólk í ráðuneytinu.

Eins og ég hef sagt áður hef ég alls ekki verið að loka á það að skoða þetta aðstoðarmannakerfi. Það má vel hugsa sér að styrkja þurfi þessa pólitísku hlið í ráðuneytunum.

En kerfið eins og það er lagt hérna fram með hugmyndum um 23 aðstoðarmenn, 20 fasta menn, þrjá sem ganga svona einhvern veginn á milli og í ljósi þess að við höfum ekki hugmynd um hversu mörg ráðuneytin eiga að vera, þau geta teóretískt verið frá einu upp í hið óendanlega, þá er það mér alls ekki ljóst hvernig það er hugsað. Hv. þingmaður sagði áðan að menn þurfi út af fyrir sig ekki að ráða sér aðstoðarmenn, en ég geri nú ráð fyrir að flestir hæstv. ráðherrar muni kalla eftir því að fá sinn skerf úr þessum (Forseti hringir.) stabba.