139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði að við ályktuðum að Alþingi ætti að styrkja sjálfstæði sitt. Ég hygg að við höfum t.d. haft í huga að Alþingi hefði eitthvað um það að segja hvernig ráðuneytum væri skipað.

Mér finnst í sjálfu sér ekkert að því fyrirkomulagi sem er í dag. Menn tala að vísu oft um að það sé ekki nægjanlega sveigjanlegt, en hvaða sveigjanleika eru menn þá að tala um? Er það í raun erfitt mál, ef ríkisstjórn vill hafa fyrirkomulag ráðuneyta sinna með einhverjum öðrum hætti en verið hefur, að koma með það í formi lagabreytinga til Alþingis? Við megum auðvitað passa okkur á því að ganga ekki svo langt í hugmyndum um sveigjanleika að skjóta fram hjá Alþingi öllum stórum ákvörðunum sem lúta að stjórnsýslunni sjálfri og Stjórnarráðinu.