139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:32]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég hefði haldið það að um það gæti verið almenn pólitísk samstaða að hringla ekki í lögum um Stjórnarráð allt of oft. Hér hefur t.d. verið dregið fram að formaður VG hafi talað þannig svo seint sem á árinu 2007 og lagði einmitt mikla áherslu á að þetta væri einn af þeim þáttum sem við þyrftum að passa okkur á að fara varlega með.

Mér fannst hv. þm. Atli Gíslason, 4. þm. Suðurkjördæmis komast mjög vel að orði í ræðu sinni í nótt og sem nokkuð hefur verið vitnað til, þegar hann sagði að lögin um Stjórnarráð Íslands væru ekki augnabliksmál. Ég held að það lýsi þessu ákaflega vel. Í landinu er ákveðin löggjöf sem er bara einfaldlega þess eðlis að í henni þarf að vera ákveðin festa sem menn geta reitt sig á. Og lögin um Stjórnarráð Íslands eru af því tagi.