139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:34]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Árið 2007 voru gerðar breytingar á Stjórnarráðinu með samþykkt lagafrumvarps. Í skýringum með því frumvarpi segir, með leyfi forseta:

„Allar þessar breytingar miða að því að laga stjórnsýsluna og verkefni ráðuneyta betur að þörfum nútímans. Ráðuneyti verði þannig öflugar einingar þar sem skyldum málaflokkum er skipað saman undir eina stjórn. Hyggst ríkisstjórnin halda áfram á sömu braut og undirbúa enn frekari hagræðingu í skipulagi og rekstri ráðuneyta og ríkisstofnana.“

Þarna var verið að búa til nýtt ráðuneyti þar sem sameinuð voru sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson tók við sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í því nýja ráðuneyti. Með leyfi forseta, segir í skýringunum enn fremur:

„Er því lögð til sú einfalda breyting að með forsetaúrskurði megi ákveða sameiningu tveggja eða fleiri ráðuneyta í eitt. […] Enn fremur er með frumvarpi þessu lagt til að heimilað verði að bjóða starfsmanni, sem ráðinn er ótímabundið, annað starf innan Stjórnarráðs Íslands án opinberrar auglýsingar.“

Mig langar til að spyrja hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson hver reynsla hans hafi verið af þessu nýsameinaða ráðuneyti, (Forseti hringir.) hvort hann telji að það hafi heppnast vel eða hvort hann telji að því eigi að skipta upp aftur.