139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:37]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni fyrir svarið og ég þóttist reyndar vita það fyrir fram að hann teldi að gengið hefði ágætlega að tengja saman þessi tvö ráðuneyti, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, og að ekki væri ástæða til að skipta þeim upp aftur og jafnvel að halda mætti áfram á sömu braut, því eins og ég las upp áðan úr athugasemdum með frumvarpinu segir:

„Hyggst ríkisstjórnin halda áfram á sömu braut og undirbúa enn frekari hagræðingu í skipan og rekstri ráðuneyta og ríkisstjórnar.“

Mig langar til að vita hvaða hugmyndir voru í gangi þar. Hvaða frekari hugmyndir hafði ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sem mynduð var vorið 2007 um hagræðingu og skipan í rekstri ráðuneyta og ríkisstofnana? Það kemur líka fram í frumvarpinu að þar var eitthvað í farvatninu, rétt eins og ég vitnaði í áðan. Mér finnst vanta tillögur og hugmyndir í málflutning hv. þingmanns í ræðum hans sem ég hef hlýtt á. Ég skynja það að hann er ekki andvígur því að hagrætt sé og sameinað betur (Forseti hringir.) en gert hefur verið, en hvernig vill hann gera það?