139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Í tilefni af ræðum og snubbóttum endi á ræðum hv. þingmanna Ásmundar Einars Daðasonar og Vigdísar Hauksdóttur verð ég að geta þess að ég hef fyrr við þessa umræðu, bæði í gær og í fyrradag, borið fram ákveðnar fyrirspurnir sem ég hef óskað eftir að komið verði á framfæri við hæstv. forsætisráðherra og hún svaraði. Spurningar þessar eru efnislega samhljóða þeim sem hv. þingmenn spurðu áðan. Það er ástæða til að vekja athygli hæstv. forseta á því að þrátt fyrir að ítrekað hafi verið óskað eftir svörum hæstv. forsætisráðherra við þessum spurningum hefur hún ekki látið svo lítið að svara því með þeim hætti að nokkurt efnislegt innihald sé í því. Ég held að hæstv. forsætisráðherra hafi tekið einu sinni til máls í dag í andsvörum en þar talaði hún um eitthvað allt annað. En þessum óskum (Forseti hringir.) hefur ítrekað verið komið á framfæri með kurteislegum hætti.