139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:00]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við ræðum mál sem skiptir miklu í sambandi við stjórnskipunina í framtíðinni hjá íslenska ríkinu, skiptir miklu um hvernig völdum verður skipt, þ.e. (Gripið fram í.) um valdahlutföll milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins. Því er ekki nema von að mörgum þingmönnum liggi mikið á hjarta í málinu og vilji tjá sig mikið um það. Við höfum séð að hér hafa verið fluttar fjölmargar efnislega góðar og miklar ræður síðustu daga, það er ekkert nema gott um það að segja.

Fjörugar og líflegar umræður eru nauðsynlegar í lýðræðisþjóðfélagi til að komast að réttri niðurstöðu. Þess vegna er ákaflega hvimleitt þegar þingmenn stjórnarinnar eru að koma upp í pirringi og gefa ræðum þingmanna einkunn og tala um að þeim færi best að þegja eða réttara sagt að hafa hljótt og annað slíkt (Forseti hringir.) eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason gerði hérna. Ég vil mælast til þess við forseta (Forseti hringir.) að hann uppfræði þingmanninn um hvernig lýðræðisskipulag virkar.