139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að koma hingað upp undir þessum lið vegna ummæla hv. þm. Þuríðar Backman. Hún fullyrti að það væri allsherjarnefndar að svara fyrir frumvarp þetta.

Herra forseti. Ég er fulltrúi Framsóknarflokksins í allsherjarnefnd. Ég heyrði það í fréttum að ég er sá þingmaður sem hefur talað mest í máli þessu. Það skal því upplýst hér að málið var á engan hátt fullbúið í allsherjarnefnd, slíkur var asinn á því. Það var tekið út í ósátt og fellt í allsherjarnefnd þar til samið var við ríkisstjórnarfulltrúana sjálfa í nefndinni að gera málamiðlun til að greiða fyrir því að málið kæmi inn í þingið. Þetta er alveg dæmalaus málflutningur, herra forseti, en sýnir þann spuna sem hefur átt sér stað meðan ríkisstjórnin hefur starfað, að gera Alþingi allt sekt fyrir verkleysi ríkisstjórnarinnar. Það er (Forseti hringir.) meiri hluti í allsherjarnefnd sem er sá hinn sami og í ríkisstjórninni, en við í stjórnarandstöðunni erum saklaus af því að bera ábyrgð á þessu máli.