139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:50]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er áreiðanlega rétt sem hæstv. forseti segir að margir hv. þingmenn hafi áhuga á því að ræða þetta mál. Það fer hins vegar margt að benda til þess að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki mikinn áhuga á því að ræða málið, a.m.k. hefur hæstv. forsætisráðherra ekki nýtt sér fjölmörg tækifæri sem gefist hafa til að svara fyrirspurnum sem sérstaklega hefur verið til hennar beint, málefnalegum spurningum sem lúta að því hvaða áform hæstv. forsætisráðherra hafi um að nýta sér þær heimildir sem frumvarpið sem hér er til umræðu felur henni, færir frá Alþingi til hennar. Er til of mikils mælst, hæstv. forseti, að hæstv. forsætisráðherra fari einhverjum orðum um þau áform sem hún hefur um að nýta heimildir sem í frumvarpinu felast, fái hún þær í hendur?