139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:54]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég held að það sé rétt, um leið og við ræðum fundarstjórn forseta, að hrósa hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir að kveðja sér hljóðs í umræðunni, það verður fróðlegt að heyra hvað stjórnarliðinn, hv. þingmaður, mun leggja til málanna.

Ég vil hins vegar beina því til frú forseta að mér finnst í raun og veru að forseti þingsins hafi ekki staðið sig í stykkinu þegar ég beindi ítrekað fyrirspurnum til hæstv. forsætisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar í dag. Ég hef margsinnis beðið hæstv. forseta um að kalla þessa þingmenn til umræðunnar þannig að við fáum svör við þeim fyrirspurnum sem við höfum beint til þeirra í þessari mikilvægu umræðu. Ég fer einfaldlega fram á það við frú forseta að hún leggi að hæstv. ráðherrum sem bera ábyrgð á málinu að koma til umræðunnar, vegna þess að við erum í raun og veru á eintali við okkur sjálf, við fáum ekki svör við mjög mikilvægum spurningum (Forseti hringir.) sem snerta þetta brýna mál.