139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:22]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég held að ríkisstjórnin sé hvorki komin út í skurð við sameiningu ráðuneyta né annað. Ég tel að það hafi verið mjög ýjað að því í þessum umræðum að sameining á velferðarráðuneyti og innanríkisráðuneyti hafi ekki skilað því sem hún hafi átt að skila. Ég legg til að við biðjum um skýrslu um það, fáum samanburð og athugum hvernig það mál liggur til að fólk sé ekki með sleggjudóma um það. Ég tel að hægt sé að ná mikilli hagræðingu með því að sameina ráðuneyti.

Tillagan um tvo jafnsetta ráðherra í sama ráðuneyti er heimildarákvæði þannig að hægt sé að nota það. Ég tók dæmi um atvinnuvegaráðuneyti ef það yrði til.

Varðandi siðareglurnar er ég ekkert á móti þeim, ég er alveg hlynnt því og miklu meira en svo að siðareglur verði bundnar í lög. (Forseti hringir.) Ég tel hins vegar að siðareglur séu í okkur en ekki (Forseti hringir.) í lagabókstaf. (Gripið fram í.)