139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:30]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Í dag ræður Alþingi hvernig þessum málum er háttað, en þetta frumvarp felur einmitt í sér að hæstv. forsætisráðherra ráði því hvernig þessum málum verður háttað. Það var gott að heyra hv. þingmann segja hér að ef Alþingi og forsætisráðherra eru ósammála eigi forsætisráðherra að ráða. (VBj: Ég sagði það ekki.)

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það sem snýr að skýrslu þingmannanefndar og ræðu Atla Gíslasonar sem hann flutti hér í gær. Hv. þingmaður sagðist vera ósammála Atla Gíslasyni sem fór inn á það að þetta væri þvert gegn skýrslu þingmannanefndar vegna þess að verið væri að flytja vald frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins. Það kom fram í umræðunum hér fyrr í vikunni að staðið hefði til að einhverjir fulltrúar úr þingmannanefndinni kæmu fyrir allsherjarnefnd og þá langar mig að spyrja: Getur verið að forustan í hv. allsherjarnefnd hafi ekki viljað fá Atla Gíslason á fund nefndarinnar vegna þess að hann væri ósammála (Forseti hringir.) forustu hennar?