139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:39]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég komi fyrst að þessu síðasta er eðlilegt að það sé ekki í frumvarpinu vegna þess að það eru engin ráðuneyti nefnd þar. Hins vegar held ég að það væri ekki vandi að kippa því í liðinn og jafnvel má vera að þetta sé „lapsus“. Ég treysti mér ekki til að segja það hér og nú en vil gjarnan ræða það og fá álit sérfræðinga á því þegar málið kemur aftur til nefndar.

Síðan er náttúrlega alveg ljóst að þótt sagt sé í lögum eins og þessum eitthvað um forsætisráðherra þetta og forsætisráðherra hitt vinnur forsætisráðherra ekki einn. Forsætisráðherra vinnur með ríkisstjórn. Ríkisstjórnin kemur sér saman um hluti. Annað gengur ekki. Og svo er þessi eilífi metingur um hver fær þetta og hver fær hitt sem ég kallaði í mínu fyrra lífi bara strákameting.