139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:07]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil í upphafi minna á að um hádegisbil í dag hélt ég fyrri ræðu mína við þessa umræðu — eða fyrstu ræðu, það fer eftir því hvernig málinu vindur fram, að minnsta kosti ef maður fær ekki svör við þeim spurningum sem maður leggur fram til að skýra umræðuna. Ég óskaði eftir því við frú forseta að hæstv. forsætisráðherra, innanríkisráðherra, fjármálaráðherra og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kæmu í þingsal til að svara þeim fyrirspurnum sem ég lagði fram í dag, og þeir hafa væntanlega heyrt. Nú spyr ég hæstv. forseta hvort þessir aðilar séu viðstaddir umræðuna í húsinu, hvort þeir séu væntanlegir í þingsal og bið hæstv. forseta að gera þeim viðvart um að nærveru þeirra sé óskað.

(Forseti (ÞBack): Forseti getur upplýst að viðkomandi ráðherrar og þingmenn eru í húsinu og þeim verður gert viðvart um að viðveru þeirra sé óskað í þingsal. En þeir eru í húsinu og fylgjast með ræðu hv. þingmanns.)

Takk, frú forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Eins og ég sagði fyrr í dag er mikilvægt að fá svör frá þessum aðilum við þeim spurningum sem bornar hafa verið fram í dag.

Það hefur verið borið á okkur stjórnarandstæðinga að standa í málþófi og mörg ljót orð hafa fallið um málþóf og meintan skort á greind og annað sem ég ætla ekki að hafa eftir, sem hefur verið Alþingi til minnkunar. Við höfum beðið eftir því að stjórnarliðar komi hingað til samræðna og iðki þau samræðustjórnmál sem boðuð voru í aðdraganda síðustu kosninga en hafa því miður ekki gengið eftir.

Ég ætla að rifja einu sinni enn upp, vegna þess að mér finnst það grundvallaratriði, að þegar menn hafa mælt fyrir frumvarpinu, og það stendur líka í greinargerð, hafa þeir sagt að það sé byggt á vinnu þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Formaður þeirrar nefndar kom upp í gær, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og hrakti mjög málefnalega að það sem stendur í greinargerðinni, þar sem vísað er til umræddrar þingmannanefndar, stenst ekki skoðun. Í raun og veru er þar gengið þvert gegn því sem þingmannanefndin ályktaði um og var samþykkt hér fyrir nokkrum mánuðum með 63 greiddum atkvæðum stjórnarliða og stjórnarandstæðinga, þ.e. að hefja ætti Alþingi Íslendinga til vegs og virðingar og auka vald þess og vægi gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Hv. þm. Atli Gíslason og reyndar líka hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hafa farið mjög vel yfir vinnu þingmannanefndarinnar. Það er þess vegna rangt sem komið hefur fram í greinargerð með frumvarpinu, í málflutningi hæstv. forsætisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra og annarra stjórnarliða, að þetta mál sé grundvallað á vönduðu starfi þingmannanefndarinnar. Það liggur fyrir og þar með er grundvöllur málsins fokinn út í veður og vind. Það er ánægjulegt að sjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra koma til umræðunnar. Hann hefur mjög oft verið viðstaddur þessa umræðu og hefur hlýtt á ræður en ég hefði haldið að rétt væri að hæstv. ráðherra biðji um orðið og geri grein fyrir áherslum sínum í þessu máli. (Gripið fram í.) Það er hægt að gera það. Það væri mjög mikilvægt að fá innlegg hæstv. ráðherra á þessari stundu. Þetta mál, eins og við þekkjum, gæti snert verksvið ráðuneytis hans eða annarra ráðuneyta eftir atvikum.

Ég minntist á það í dag að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefði tekið algera U-beygju þegar kemur að málefnum Alþingis og þingræðisins. Þeir stóðu í stafni duglegir að halda miklar ræður, forustumenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, voru titlaðir ræðukóngar ár eftir ár, héldu lengstu ræðurnar og oft var mikið innihald í þeim, eðlilega, enda var þá ekki búið að takmarka ræðutímann í þinginu. Og oftar en ekki var verið að ræða um starfsaðferðir í þinginu, að þeir væru þingræðissinnar og að standa ætti vörð um Alþingi Íslendinga. Mikið var rætt um yfirgang framkvæmdarvaldsins á þeim tíma, hvernig framkvæmdarvaldið færi með Alþingi Íslendinga, að Alþingi Íslendinga væri eins konar stimpilpúði fyrir framkvæmdarvaldið.

Það er því óskiljanlegt, frú forseti, að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að minnsta kosti stærsti hluti hans, skuli nú standa að máli sem mun heimila formanni Samfylkingarinnar, hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, alræðisvald yfir því hvernig hún hagar skiptingu starfa innan Stjórnarráðs Íslands. Hingað til og í gegnum áratugina hafa menn unnið þessi mál í samvinnu allra þingflokka. Það var síðast árið 2007 sem formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ítrekaði það í ræðu að mál sem þessi ætti einmitt ekki að afgreiða í óeiningu heldur í sátt og í samvinnu. Það hefur engin tilraun verið gerð til þess af hálfu hæstv. ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Þvert á móti hafa stjórnarliðar sett undir sig hausinn. Þetta mál skal lamið í gegn á þessum septemberstubbi, á þessu þingi þar sem afgreiða átti samkomulagsmál sem ekki var hægt að ganga frá síðasta vor.

Hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hefur gersamlega snúið við blaðinu þegar kemur að þingræðinu, að því að efla þingið, og hæstv. ríkisstjórn er svo huguð að ganga gegn bæði skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og því sem þar stendur og ályktun þingmannanefndarinnar sem fjallaði um skýrsluna og var samhljóða afgreidd á Alþingi Íslendinga. Mér finnst það miður að upplifa þetta og ég ætla að spyrja hæstv. forsætisráðherra, af því að hún er komin í salinn, og neitaði að svara fyrirspurnum sem ég lagði fyrir hana í dag, hvort þetta sé verklag sem verið sé að innleiða, að breyta eigi lögum um Stjórnarráð Íslands í ágreiningi þegar áratugahefð hefur verið fyrir því að menn reyni að leysa þau mál í sátt og samvinnu á milli allra flokka. Getum við þá átt von á því, og ég beini þessari spurningu til hæstv. forsætisráðherra, að hún komi fram 1. október með breytingu á þingsköpum? Getur verið að þar muni meiri hlutinn, hinn naumi meiri hluti, koma í veg fyrir að þingmenn hafi greiðan aðgang að ráðherrum til fyrirspurna, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. ráðherra hefur neitað að svara fyrirspurnum í dag þó að hún hafi átt kost á því? (Gripið fram í.) Getur verið að breyta eigi þeirri hefð hjá hinni norrænu velferðarstjórn að þingskapalögum verði breytt á þann hátt að meiri hlutinn, þó að naumur sé, kýli slíkar breytingar í gegn þvert á áratugahefð í þinginu?

Það má kannski kalla það að sá sem hér stendur sé með gamaldagspólitík þegar hann ræðir um þetta og að þetta sé nýja pólitíkin en hún er ekki til eftirbreytni og samráðsleysið við stjórnarandstöðuna í þessu máli er hrópandi. Og talandi um nýja tíma, nýja Ísland, og að verið sé að vinna erfið verk þá skil ég ekki hvernig þetta mál kemur þar inn í. Þær nefndir og það starf sem hefur verið unnið frá hruni haustsins 2008 hefur einmitt mælt fyrir því að auka eigi veg, virðingu og vald þingsins en ekki minnka það eins og verið er að mæla fyrir um hér.

Það var merkilegt að hlusta á fréttir sjónvarpsins í kvöld. Þar var haft eftir forsætisráðherra, í frétt um þetta mál, að það væri rangt, sem ég hefði haldið fram í hádeginu, að verið væri að veikja þau völd sem Alþingi hefði og auka heimildir framkvæmdarvaldsins. Þar fer forsætisráðherra þjóðarinnar með rangt mál, í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvernig hún geti rökstutt það að ekki sé verið að veikja valdheimildir þingsins með þessu frumvarpi gagnvart lögum um Stjórnarráðið þegar verið er að flytja það hlutverk frá þingmönnum að hlutast til um það með hvaða hætti Stjórnarráðið vinnur. Þannig geta þingmenn kallað eftir umsögnum úr samfélaginu frá hagsmunaaðilum og farið með ígrunduðum hætti yfir málið, en með því að flytja þetta frá Alþingi yfir í forsætisráðuneytið, yfir í einveldi hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur — hvernig getur hæstv. forsætisráðherra sagt við þjóðina að sá sem hér stendur hafi farið með rangt mál? Það sjá það allir sem vilja að verið er að veikja heimildir Alþingis, að verið er að veikja Alþingi sem stofnun, og hæstv. forsætisráðherra getur ekki látið hafa eftir sér slík ósannindi sem komu fram í máli hennar í kvöldfréttum sjónvarpsins. Hafa skal það sem sannara reynist.

Ég óska eftir viðbrögðum frá forustu ríkisstjórnarinnar við ummælum formanns þingmannanefndarinnar í nótt um það að rökstuðningurinn á bak við frumvarpið, sem er starf þingmannanefndarinnar, sé brostinn. Eða eru allir að segja ósatt nema hæstv. forsætisráðherra? Við hljótum að kalla eftir því að hæstv. forsætisráðherra biðji um orðið og svari þeim fyrirspurnum sem margir þingmenn hafa beint til hæstv. ráðherra.

Hæstv. innanríkisráðherra hefur ekki komið til umræðunnar eða setið undir henni. Hann hefur væntanlega fylgst með henni einhvers staðar annars staðar frá en við höfum kallað eftir því að hæstv. ráðherra komi hingað og geri grein fyrir sjónarmiðum sínum, að við tölum nú ekki um formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem er foringi þess flokks sem hefur tekið U-beygju þegar kemur að málefnum Alþingis, að standa vörð um Alþingi Íslendinga og koma í veg fyrir að yfirgangur framkvæmdarvaldsins haldi áfram.

Með frumvarpinu er nefnilega verið að auka á eitthvað sem við höfum kallað foringjaræði. Menn töldu fyrir hrun að foringjaræðið hefði verið allt of mikið og menn töldu líka eftir hrun að foringjaræðið hefði verið heldur mikið og vísað er til þess á mörgum stöðum. En nú á að bæta enn frekar í. Það á að auka völd hæstv. ráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur með þessu frumvarpi. Þannig eru fjölmargir stjórnarliðar, og ég vil segja allir stjórnarliðar, að ganga á bak orða sinna þegar þeir samþykktu það skjal sem var samþykkt héðan sem ályktun Alþingis, og var álit þingmannanefndarinnar sem fór yfir skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Það er grátlegt að verða vitni að því að ein manneskja, hæstv. forsætisráðherra, skuli í krafti oddvitaræðisins geta sett þetta eina mál á dagskrá þegar 46 mál bíða afgreiðslu. Síðan kom í ljós í morgun, vegna þess að ekki hafði verið haldinn fundur frá því á mánudag með formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar, að gleymst hefði að taka inn einhver mál til viðbótar. Það er náttúrlega fáheyrt um margra áratuga skeið að á fimmtudegi komi í ljós að formenn þingflokka hafi ekki átt fund með forseta Alþingis til að ræða um það hvenær ljúka eigi þinginu. Hvers lags vinnubrögð eru þetta? Eitt málið sem nefnt var í þessu samhengi var staðgöngumæðrun sem ekki hefur komist á dagskrá og þarf ítarlega umræðu.

Það væri áhugavert að heyra frá hæstv. ráðherrum hvaða hugmyndir þeir hafa um fjölgun á aðstoðarmönnum. Ég geri mér grein fyrir því að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands þurfa að hafa aðstoð í erfiðum verkefnum en hér er verið að tala um fjölgun á aðstoðarmönnum í allt að 23 og í fljótu bragði reiknast mér til að það gæti kostað um 150 millj. kr. ef þeir yrðu ráðnir. Reyndar er það svo að þessi ríkisstjórn er ekkert að byrja í ráðningarmálum í ráðuneytunum. Tugir einstaklinga hafa verið ráðnir inn í ráðuneytin án þess að auglýst hafi verið eftir starfsfólki þar, svo að viðlíka hefur varla sést um áraraðir. Þetta er hin opna stjórnsýsla sem ríkisstjórnin boðaði fyrir síðustu kosningar. Þannig er komið í veg fyrir að margir hæfir einstaklingar — höfum í huga að 12–13 þúsund Íslendingar eru án atvinnu — geti sótt um þau störf. Það hefði verið gott fyrir okkur, sem erum meðal annars að fara að ræða fjárlögin á þessu hausti, að heyra hvaða hugmyndir hæstv. ráðherrar hafa um ráðningar á þessum aðstoðarmönnum, en mér heyrist að ríkisstjórnin ætli sér að fara í heilmikinn niðurskurð á öðrum sviðum. Það er verið að segja fólki upp í heilbrigðisgeiranum og í menntastofnunum landsins og ég er viss um að margir af þeim sem þar hafa verið að missa vinnuna eða eru að missa vinnuna, margt lágtekjufólk, hefur margfalt lægri laun en þeir einstaklingar sem rætt er um í þessu frumvarpi.

Mér finnst hæstv. forsætisráðherra reyna að koma sér ansi léttilega undan því að svara fyrir hönd ríkisstjórnarflokkanna hvort hún sé stolt af framgöngu stjórnarliða í þessari umræðu. Ég ætla að endurtaka þá spurningu vegna þess að mér finnst það til háborinnar skammar fyrir Alþingi Íslendinga hvernig stjórnarliðar hafa komið fram. Í fyrsta lagi að uppnefna forseta lýðveldisins og kalla hann ræfil úr þessum ræðustól, einsdæmi í lýðveldissögunni. Að segja að formaður þingflokks framsóknarmanna sé með ákveðinn geðsjúkdóm, sem ég ætla ekki að nefna, er ein mesta lágkúra á seinni árum og mjög alvarlegt að hafa slík mál í flimtingum á Alþingi. Og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir kemur hingað upp og segir að allur þingheimur, alla vega stjórnarandstaðan, sé illa gefinn. Þvílíkir palladómar yfir hv. þingmönnum. Síðast en ekki síst í morgun þegar hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, kallaði ákveðinn hóp þingmanna talíbana. Þetta er ekki til að auka veg og virðingu þingsins og þeir koma aftur upp, þingmenn stjórnarliðsins, jafnvel þessir sömu þingmenn, og saka okkur sem viljum standa vörð um þingræðið í landinu, völd Alþingis, heiður þess, um málþóf og þó erum við að koma hingað upp og spyrja aftur sömu og sömu spurninganna. En málið er að hæstv. forsætisráðherra neitar að svara spurningunum. Það er búið að setja einhver bönd á landgöngulið Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, það hefur alla vega ekki verið mjög áberandi í þessari umræðu. Það á bara að keyra þetta mál í gegn á hnefanum. Nú er það hnefinn sem gildir.

Ég ætla að sagan muni dæma þá þingmenn sem ætla að standa fyrir því að veikja Alþingi Íslendinga á kostnað framkvæmdarvaldsins. Framkvæmdarvaldið er að auka valdheimildir sínar með umræddu frumvarpi. Það er ótrúlegt að forsætisráðherra þjóðarinnar skuli koma fram fyrir alþjóð og segja að með því sé ekki verið að veikja valdheimildir þingsins þegar það liggur fyrir í frumvarpinu. Ég held að hæstv. forsætisráðherra verði að koma hingað upp og gera grein fyrir máli sínu. Öðruvísi mér áður brá, eins og ég hef sagt hér, að þingmenn Vinstri grænna skuli taka þátt í þessum leiðangri með Samfylkingunni. Það er orðið dapurlegt að sjá örlög þess flokks, hvernig hann hefur hringsnúið öllum sínum helstu stefnumálum frá kosningunum fyrir um tveimur árum. Það er alveg ótrúlegt að sjá hvað menn gera fyrir það að sitja í ríkisstjórn með hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur.

Það verður athyglisvert, ef frumvarpið verður samþykkt, að sjá hvað gerist ef einhver fer að mótmæla hæstv. forsætisráðherra á ríkisstjórnarfundum. Ég er viss um að hæstv. forsætisráðherra mun þá beita gamalkunnu tæki sínu og fara að hóta. Hún mun segja við einstaka ráðherra: Ef þú gerir þetta ekki mun ég taka þetta verkefni af þér. Hún mun hafa sjálfdæmi um það. Það þarf ekkert að leggja málið fyrir óbreytta þingmenn, enda er verið að auka völd framkvæmdarvaldsins. Það er verið að veikja áhrif og völd alþingismanna og það er undarlegt að sjá að alþingismenn sjálfir skulu standa í þessu, að alþingismenn sjálfir skuli beita sér fyrir því, með því að samþykkja frumvarpið, að gera starf alþingismannsins veigaminna en það er.

Við þurfum að fá svör frá þeim hæstv. ráðherrum og hv. þingmanni sem ég hef ítrekað beðið um að komi til þessarar umræðu. Það er gagnlegt fyrir okkur, áður en við göngum til atkvæðagreiðslu um þessi mál, að menn svari í það minnsta þeim spurningum sem við leggjum fram.