139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:35]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Varðandi það sem hv. þingmaður kom inn á, að verið væri að saka menn um málþóf í umræðunni, þá vil ég taka það sérstaklega fram að það hefur aldrei verið sagt frá mínum munni. Ég var í stjórnarandstöðu frá 1999 til 2009 (ÁI: Til dagsins í dag.) og gagnrýndi þá ríkisstjórnina fyrir framkvæmd sína og háttalag og fannst hún beita harðri valdbeitingu, eins og hv. þingmaður orðaði það, og oft notað þingið sem stimpilpúða. Ég var þessu afar andvígur og hef alltaf verið þeirrar skoðunar að styrkja eigi stöðu þingsins.

Varðandi meðhöndlun á skýrslu þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndarinnar um ástæður hrunsins tel ég að Alþingi hefði sjálft átt að taka frumkvæðið og semja frumvarp um breytta stjórnarhætti sem tækju bæði til löggjafarsamkomunnar og samskiptanna milli löggjafarsamkundunnar Alþingis og framkvæmdarvaldsins. Alþingi hefði sjálft átt að taka frumkvæðið þannig að frumvarpið sem við ræðum hér væri frumvarp sem Alþingi hefði sjálft samið. Þeirrar skoðunar var ég og þess vegna var ég ekki sammála því þegar frumvarpið kom fram í ríkisstjórn, og vinnan að baki þeirrar skýrslu sem hér hefur verið nefnd var notuð til að semja þetta frumvarp, (Forseti hringir.) því að það er að mínu mati liður í sömu valdbeitingu og ég barðist gegn á þingi sem þingmaður í stjórnarandstöðu.